dorimori

Tuesday, October 23, 2007

sígur á seinni hlutann

Jæja, það er fariðað síga á seinni hlutann á þessu fæðingarorlofi, ég byrja að vinna upp úr mánaðarmótum. Lillan fitnar með hverjum degi og mældist tæp 5 kíló hjá hjúkkunni í gær. Fyrr í kvöld fór ég með krakkana til tengdó í bað og þar mældist Hrafnkell 14 kíló og Þuríður heil 20 kíló! Samt er alltaf tómur slagur við að fá þessa krakkaorma til að borða, nema í þau örfáu skipti sem ég elda bjúgu með uppstúf. He he, mig langaði einmitt til að segja frá skemmtilegum pastarétt með afgögnum af bjúgum - saxa restina bara beint í uppstúfinn og svo sturta svolitlu óreganó og basilikum út á! Íslenskt - ítalskt samvinnueldhús.... spurning með að bæta hnetum við til að toppa ruglið?

Á myndinni erum við familían í Hreiðrinu á Landsspítalanum daginn eftir nýburunina.

Jám, um næstu helgi ætlar Eysó systir að skíra stelpuna sína. Gerða kemur á föstudag og þá á Íris líka afmæli.

Þetta er nú meira kettlingaveðrið... ætli ég skelli mér ekki bara í pottinn á eftir (ef það er undir 25 m/s á Reykjanesbraut)... Í gærdag fauk grillið yfir endilangan sólpallinn en merkilegt nokk þá stóð það enn á löppunum! Merkilegur andskoti, það var eins og einhver hefði bara trillað því á nýjan stað...

Baðherbergið mjakast áfram, ég er búinn að flota gólfið og er hálfnaður við að gifsa... Hvert er málið með frasann "hálfnað er verk þá hafið er"? Meiri þvælan, fer í ruslið með undantekningunni sem sannar regluna..... NEMA kannski ef "undantekning" merkir í raun gelding og "sannar" er raun gamli góði San Nar og þá var San Nar geldur af lögreglunni... Æ nei, hjálpi mér frá sjálfum mér, í ruslið með þetta allt!

yfir og úr
-rogerrr

Wednesday, October 17, 2007

Ný mynd af feðginum


Nei heyrðu nú, er þetta ekki einum of ákaft blögg? Jæja hérna er mynd af okkur feðginunum sem ég var að taka rétt í þessu....

yfirut
i-rod

Tuesday, October 16, 2007

vex og dafnar


Litla títla vex og dafnar. Hún er ansi ákveðin og kvartar hátt ef henni er misboðið (að hennar mati). Það gerist af og til, enda fær nýja daman ekki óskipta athygli. Litla títla er orðin ansi mannaleg, farin að kíkja í kringum sig og halda haus. Núna eru mæðgurnar steinsofandi uppi. Annars eru stóru krakkarnir núna nýkomin af leikskólanum Álfasteini og farin að leira. Okkur líst vel á leikskólann og krökkunum virðist líka vel. Hrafnkell er nú loks orðinn viðræðuhæfur og segir ný orð (á sinn hátt) á hverjum degi, t.d. merkir "bæbæh" Spiderman!

Vill einhver kaupa bíl? Súsúkí vítaran okkar er föl fyrir 350 kall. Þetta er dísel jálkur með 240 þ. km reynslu og ákaflega góður ferðabíll - ekki bara fyrir dverga og með furðu gott farangursrými (rúmar 7 dverga). Sími 892 7715.

Svo fylgir ein vikugömul mynd af litlu títlu þegar stóra frænka hennar Eysó kíkti í heimsókn...

-yfir og út,
irod

Wednesday, October 10, 2007

ný skvísa!



Aðfaranótt laugardagsins 29.september (kl. 04:08) fæddi konan mín alhrausta skvísu sem vóg 4340 grömm (17 merkur) og var 53 cm að lengd. Fyrsta fæðingin fyrir 4 árum tók 3 daga, sú fyrir 2 árum tók 1 dag og núna voru þetta 8 tímar og allt gekk vel. Talnaglöggir sjá að næsta fæðing (eftir 2 ár) mun taka 2 tíma og 40 mínútur... en nei nei ég held að þetta sé komið gott. Á myndinni er kerlingin rétt um korters gömul!

Við erum á fullu að koma okkur fyrir á Vesturholtinu og stundum finnst mér þetta vera meira vera flutninga- og framkvæmdaorlof heldur en fæðingarorlof.... En það er nú bara svona. Allt baðherbergið fór út. Já, ALLT. Gipsveggirnir fóru með flísunum, eins voru gólfplöturnar lélegar og nú vill Bjarni smiður líka endurnýja hluta af vegggrindunum, en í gær kláraði Bjarni að ganga frá gólfinu. Jæja, þetta mjakast....