dorimori

Tuesday, April 25, 2006

Hjólerí og súkkulaðifíkn

Jæja, þá er enn einum 2ja tíma vinnudeginum lokið... Hrafnkell er sofandi og ég hamast í þvottinum og reyni að koma eldhúsinu í skikkanlegt lag. Við Ía fórum í ágætis hjólatúr á laugardaginn síðasta. Kl. 9 um morguninn ákváðum við sumsé að fara í hjólatúr. Þá þurfti að taka alla til fyrir daginn, græja krakkana og taka með sér hjólaföt og svo spariföt fyrir þrítugsafmæliskokkteil sem var seinna um daginn. Já og svo skella í vélina og reyna að hreinsa upp eftir Hrafnkel. Þetta tók tæpa 2 tíma með því að binda hjólin á bílinn. Er það góður eða slæmur tími??? Maður er alltaf eins og jólatré í búferlaflutningum þegar maður fer á milli húsa, með 32 töskur hangandi í allar áttir... sígaunapabbi! Eftir snemmfundinn hádegismat hjá Ernu og Helga í Hafnafirðinum þávorum við loksins komin af stað klukkan 12. Hjóluðum ágætis hring í kringum golfvöllinn, í átt að álverinu, í kringum Vallahverfið og upp Áslandið. Það eru fínir stígar í Hfj., en oft bregður við að þeir enda bara einn tveir og tíu á asnalegustu stöðum! Jæja, Lúlli hlýtur að kippa þessu í liðinn á næsta kjörtímabili.
Sluppum að mestu við éljaganginn sem var allt í kring.

Jamm, kannski fer ég bara út að hjóla með Rabbanakel á eftir... það er nefnilega bumbuátak í gangi. Íris sagði "súkkulaðibindindi" um daginn og mér leið strax eins og þegar ég var að hætta að reykja, klórandi fíkn í eitthvað sem ég var ekki einusinni búinn að missa. Var að sporðrenna einum bita af hvítu tobbleróni áðan eftir hádegismatinn. Er það nokkuð súkkulaði? Eru Capri sígarettur í alvörunni? Stundum sakna ég þess rosalega að reykja og fer ósjálfrátt að plana næsta svindl! Útlönd, landsbyggðin, bjór... endalausir möguleikar! Jæja, ég hef samt ekkert svindlað síðan í afmælinu hjá Gunna í febrúar.

yfir og út
-dorimori

Friday, April 21, 2006

Sumardagurinn annar

Þetta er meira sumarveðrið - SA ófáir metrar og rigning. Nennti ómögulega að hjóla í morgun, enda bara 2ja tíma vinnulota fyrir hádegi (Íris fór að kenna upp úr kl. 11). Ég næ nú samt vonandi góðri skorpu á eftir. Ég las einmitt skemmtilegan fróðleiksmola um brauð í Blaðinu um daginn: "skorpa er karamella". Já, þannig er það bara! Þegar sykrurnar í brauðdeiginu hitna nóg eða brúnast, þá verður til skorpan - myndast eins og karamella og er líka úr sykrum. Talandi um sykur, ég þori varla að taka meira af páskaegginu hjá Þuríði Ernu...

Ósköp venjulegt kvöld í gær: Kvöldmatur, krökkum komið í bað og ból, tiltekt, sjónvarp og svo meira sjónvarp. Æ hvað maður dettur alltaf í þessar aðþrengdu eiginkonur. Ég nenni þessu ekki lengur. Bókaútgefendur: Auglýsið nú undir þemanu "Hættu að glápa, farðu að lesa", "ertu búin(n) að horfa nóg á sjónvarp í kvöld"? Það myndi allavegana virka á mig.

Við erum eiginlega hætt við að fara norður um helgina, en þar ætluðum við að vera í aukapáskafríi því að ég var að vinna alla páskana. Við verðum víst bæði að vinna. vinna. vinna. Bara ef maður næði nú að koma einhverju í verk í vinnunni þá yrði maður allavegana sáttur....

Kannski maður ætti bara að ráða sig hjá Gæslunni???

-yfir og út

yfir og út

Thursday, April 20, 2006

Sumardagurinn fyrsti

Jæja, nú er kominn sumardagurinn fyrsti. Ég er búinn með páskaeggið mitt og byrjaður á egginu hennar Þuríðar Ernu. Annars voru þetta alveg ágætir páskar. Maður nær ekki í skrúðgöngu frekar en í fyrra, því að ÞEHH er steinsofandi á skrúðgöngutímanum. Dásamlegt veður, allavegana er ég að stikna hérna inni. Gússmanó (Hrafnkell) hamast á sópinum og ryksugunni - mér sýnist hann alveg húkkd. Gússmanninn er líka farinn að skilja svolítið - eins og nafnið sitt, nei!, nei nei!, nei nei nei!, ó ó, láttu kjurt kallinn o.s.frv.

Mmmmm mig langar í nammi...

Tuesday, April 11, 2006

Þuríður Erna 3ja ára

Jæja, er ekki bara málið að nýta þetta blogg eitthvað?

Þuríður Erna varð þriggja ára í dag. Greyið er búin að vera lasin í 2 daga, með einhver magaónot og nokkrar kommur. Hún vaknaði eitthvað um klukkan 6 í morgun, sem er þó aðeins seinna en í gær! Við hjúin reyndum að sofa endalaust brölt af okkur - heldur árangurslítið. Svo rak Þuríður Erna augun í pakkann frá afa Geir og Ömmu Guðrúnu. Girnilegur pakki með fígúrum sem líktust mest skyldmennum Einars Áskels. Kannski Gunnila Bergström hafi orðið blönk? Jæja, pakkinn var allavegana opnaður og við blöstu þessir fínu dýragarðs-dúpló kubbar sem keyptu okkur áreiðanlega 6 mínútna dúr. Kom illa á okkur að vera ekki búin að redda afmælisgjöf. Vorum að spá í hjóli en nei - ÞEHH of lítil. Spáðum þá í að gefa henni höfuðljós, en það er nú kannski soldið offsíson.

Ég stökk úr vinnunni í hádeginu og fór í Kringluna og keypti 100 pulsubrauð, 100 pulsur og tilheyrandi fyrir afmælisveisluna. Það var fílingur... Stökk svo á harðaspani í dótabúð og með Írisi í símanum þá keypti ég læknadót handa ÞEHH, enda vorum við einu sinni búin að ræða það.

Pulsuveislan gekk bara vel og það kom slatti af fólki en þó nokkrir lasnir eða annars staðar. Íris bjó til dásamlega kisuköku og ég föndraði ístrukk úr ís, kiwi og saltstöngum eins og pabbi minn gerði einhverntíman. Jarðaber á pallinn. Nú langar mig í kisuköku - mmmmm bumban á mér fer að eignast sjálfstætt líf.... kannski eftir 100 kílóa múrinn.

ciao - næsta blogg ætti skv. áætlun að verða 2008!
-dorimori