dorimori

Thursday, January 31, 2008

Jamm jamma

Jamm jamma, þorrinn er kominn með kjamma.

Annars er mest lítið að frétta. Ég elska að vinna með windows skjöl í linuxnum... það fer næstum alltaf í steik.

Ragnheiður fékk fyrst mat í fyrradag, á 4ra mánaða afmælinu sínu. Já, maður setti bara dominos pizzu og brjóstamjólk í múlínexið.... Æ nei, ekki satt. Ragnheiður fær bara hrísgraut.

Hrafnkell er bara flottur gaur

...og Þuríður Erna er skotin í strák!

Vill einhver kaupa Fiat?

-yfirút, dori

Tuesday, January 08, 2008

Elsta barnið komið í afvötnun!

Elsta stelpan mín, Þuríður Erna, var að hætta með snuddu í gærkvöld. Þvílíkt org og sorg og kvein og vein! Ég skildi 100% hvernig henni leið, enda ekki svo langt síðan að ég hætti að reykja og þetta var einfaldlega alveg eins! Þuríður Erna hótaði að klippa allt dótið sitt, lofaði svo öllu fögru, þóttist aldrei hafa samþykkt að hætta o.s.frv. Hún sofnaði þó á endanum með 4 snuddur í gullskó úti í glugga í veikri von um að jólasveinninn myndi taka snuddurnar og skilja eftir pakka (ekki sígarettur þó). Viti menn, 14 dögum eftir jól kom sveinki við og skildi eftir bók! Snemma um morguninn sá Þuríður Erna þetta og sagði með ólund "ég sé alveg að þetta er bók. Mig langar ekkert í bók." Enda á jólasveinninn auðvitað að gefa það sem manni langar mest í - snuddur. En þetta gekk allt mikið betur í kvöld.

Í dag fékk Þuríður Erna að ráða öllu í verðlaun. Hún tók sér frí í leikskólanum og fór með mömmu sinni með Ragnheiði í þriggja mánaða skoðun og sprautukokkteil. 6950 grömm og slatti af sentímetrum. Ragnheiður drakk í skoðun og mældist 140 grömmum þyngri eftir það. Svo fóru mæðgurnar á Súfistann í huggulegheit með Kristjáni Brynjari og Haddý. Mæðgurnar kíktu í búðir, sóttu Hrafnkel á leikskólann og hittu mig í bíó í Smáralind. Við sáum Alvin og íkornana. Ágætis fjölskylduskemmtun. Þetta var líka í fyrsta sinn sem Hrafnkell fór í bíó og hann fílaði það vel og hann "gáaði att ammi!" þ.e. kláraði allt nammið. Svo var þetta líka í fyrsta sinn sem Ragnheiður fór í bíó, en það gekk bara vel að hafa hana með. Ég steikti svo hamborgara í kvöldmat.

Nú situr sú stutta og kúkar í gríð og erg..

yfir og út
i-rod

Sunday, January 06, 2008

Jólajóla

Jæja, nú fara jólin að fara að verða búin. Ég hef bætt á mig hefðbundinni jólabumbu ofan á bjórbumbuna frá SanFran og hlakka ógurlega til að allt hangikjötsátið líði undir lok. Síðasta reyklambið verður tuggið í kvöld heima hjá Eysó systur. Ég hugsa oft um að það væri gaman að prófa hátíðamatreiðslu frá öðrum löndum. Taco á aðfangadagskvöld? Já takk! Annars prófuðum við svona takkó-baðkör um daginn og það var ljómandi gott.

Krakkarnir eru hressir og eldri tvö eru óvenju málgefin í dag. Hrafnkell gerði stólpagrín af því að hann ætlaði klára allt kornfleggsið og rúsínurnar og Þuríður Erna samkjaftar um allt mögulegt. Hún segist sakna Skafta afa upp úr þuttu. Ragheiður hefur bókstaflega sprungið út síðustu vikuna eða svo og er orðin risabolti sem hlær og skríkir þannig að hörðustu hjörtu bráðna. Kannski þykir manni bara vænt um þegar einhver hlær að vitleysubullinu?

Íííí já. Geisp. Í gærkvöldi lauk ég við Harðskafann hans Arnalds. Mér líður svolítið eins og ég hafi hlustað á effemm eða bylgjuna í heila viku - 30 þúsund seld eintök! Annars fannst mér tímasóum að lesa bókina, hún er hreint út sagt leiðinleg. Og mér finnast bækur sjaldan leiðinlegar. Framvindan er svo hæg og óáhugaverð að mér varð ítrekað hugsað til Derricks á elliheimili. Dein sohn ist tot. Og Harðskafinn er líka "tot" og angar af metnaðarleysi, sem er svosem skiljanlegt ef maður selur öll þessi eintök. Jæja, nóg um það.

Erna og Helgi tengdaforeldrar eru að fara til Tælands í tvo mánuði á morgun. Jæks

yfir út
i-rod