Ársfjórðungsuppgjör II
Jæja, nú er september farinn að nálgast og góður tími til að koma með ársfjórðungsyfirlitið. Ég er heima með Ragnheiði í dag sem er lasin. Íris er að kenna fyrsta daginn á önninni í FB í dag.
Þetta var nú bara alveg ágætt sumar! Eina er að maður hefði verið til í að gera meira af öllu, en það þýðir sennilega bara að maður vill lengra sumar og lengra sumarfrí. Við fórum í nokkur ferðalög: 10 daga tjaldferðalag þar sem við gistum á Apavatni, Nýadal á Sprengisandi og á tjaldstæðinu á Hömrum við Akureyri. Ágætis ferðalag. Við ætluðum að vara í nokkrar nætur í Nýadal en það voru bara svo kolbrjálaðar mýflugur að við flúðum eftir eina nótt! Það var viðbjóðslegt að sjá allan þennan lífmassa iða inni á tjaldinu og reyna að borast upp í nef og eyru.
Við fórum líka í eina viku í bústað við Hreðavatn í Borgarfirði, það var hið ljúfasta letilíf og gaman að koma í Jafnaskarðsskóg. Krakkarnir skemmtu sér vel á hestbaki. Myndir á http://picasaweb.google.com/halldor.geirsson. Annars vorum við dálítið heima að vesenast í sumar. Við flísalögðum bílskúrsþakið (á reyndar eftir að klára kantinn) og svalableðil bakvið hús; endurnýjuðum hluta af grindverkinu og gengum frá og rugluðum eitthvað í garðinum. Stundum gerði maður bara ekki neitt og það líka ágætt.
Ragnheiður er komin í leikskólann og það gengur bara vel. Hún orgar eins og ég veit ekki hvað þegar maður skilur hana eftir - en er það ekki bara gott? Sýnir að henni líður vel heima hjá sér? Ragnheiður hætti með bleiu í sumar eiginlega af sjálfsdáðum. Hún sýndi koppinum mikinn áhuga og var alltaf að prófa að pissa og þegar það kom loks piss í hann þá ákváðum við bara að sleppa þessu bleiudrasli. Það tók svona 2-3 vikur að ná þolanlegum árangri. Núna kemur bara stöku piss á gólfið og mjög sjaldgæft er að það komi piss á nóttunni. Það var líka eiginlega heppilegt að við vorum á Hreðavatni vikuna eftir að hún hætti með bleiu.... he he he. Við Íris skiptumst svo á að vera "hinar mannlegu þvottavélar" í heita pottinum á morgnanna. Talið er allt að koma á milljón og mjög skemmtilegt að ræða við stelpuna. "Hvað finnst þér best að borða?" -"Djött. Afa djött. Amma djött." Sumsé kjöt.
Núna er Þuríður Erna í fyrsta sinn í skólanum. Það er búinn að vera mikill spenningur síðustu daga, en það var skólasetning á föstudag þar sem þau fengu að hitta kennarann sinn, og í gær var viðtal eða fundur með kennaranum. Þetta verður rosa gaman...
Hrafnkell er búinn að vera í miklu átaki í talþjálfun síðustu ca 2 vikurnar og það er farið að skila nokkrum árangri. Það er samt fyndið að hann á örugglega eftir að enda með að tala eins og Akureyringur með þessu framhaldi því hann segir orð eins og "kúka" og "mjólk" með afar norðlenskum hreim! Það er nú allt í lagi því Hrafnkell segist elska Akureyri og ætlar að verða kokkur þar þegar hann verður stór. Kannski fæ ég 10% afslátt á Greifanum - jei!
Annars eru stórfréttir, maður. Og nei: það er ekkert barn á leiðinni. Við stefnum á að flytja til USA um áramótin. Mér var boðið að koma í doktorsnám í Penn State í Pennsylvaníu og þar sem ég er búinn að vera að spá í að fara í framhaldsnám síðustu 5 árin (en ekki nennt að gera neitt í því) þá ákvað ég bara að slá til! Ég á eftir að ganga frá umsóknum og fara í próf og svoleiðis - þetta er brjáluð skriffinnska - en ætli það séu ekki svona 95% líkur á að við flytjum út um áramótin. Þetta er ansi spennandi en maður er líka með í maganum yfir að rífa krakkana í burtu, etv. selja húsið og kasta frá sér fullt af húsgögnum. Ég gaf "uppsagnarviðvörun" í gær, enda þarf ég ekki að setja inn uppsagnabréf fyrr en 1. okt. Ef einhver er með góð ráð varðandi dagvistun o.fl. í Ameríku þá væri gaman að heyra af því. Íris verður sennilega heima (í State College) fyrsta hálfa árið en svo er spurning hvort hún fari í skóla eða að vinna ef við fáum J- vegabréfsáritun, sem mér sýnist að eigi að ganga.
Jæja, núna ætla ég að fá mér kaffi og taka á þvottafjallinu ógurlega eða skreppa í vinnuna ef Íris fer að detta inn.
yfir og út, roger roger