Nýjar myndir o.fl.

Jæja jamm. Fréttapistill Vesturholts 19, eða þannig. Í gærkvöldi var ég grasekkill og nýtti tímann til að hanga á netinu og setja inn myndir á Picasavefinn (http://picasaweb.google.com/halldor.geirsson). Íris var að hitta gamlar vinkonur.
Það hefur verið dálítið sumarfrí á mér, sem er bara gott. Íris er alveg komin í frí frá kennslunni og freistandi að segja já þegar maður heyrir "tekur þú þér ekki bara frí á morgun elskan?". Við erum búin að ferðast dálítið, upp að Laugarvatni, Fljótshlíð og á Snæfellsnesið. Við tókum hjólin og allt með á Snæfellsnesið og ég hjólaði niður frá Snæfellsjökli, gott downhill sem endaði með slæmu krassi. Er enn aumur í úlnliðnum. Á Snæfellsnesinu keypti ég dýrasta dísil sem ég hef séð: 196 kr/líterinn. Nú verður maður að fara að hjóla meira. Annars er þessi bensínhækkun kannski ekki svo rosalega svakaleg þegar allt kemur til alls - sjáum til, síðustu ár hefur kostað a.m.k. 500 þúsund á ári að reka bíl og bensín þar af um 200 þúsund. Með hækkunum síðustu tveggja ára þá hækkar heildartalan kannski upp í 700 þúsund á ári. Einfaldasta lausnin á kostnaðaraukningunni er náttúrulega að aka minna. Hjóla þegar hægt er, safna saman erindum, fara í tjaldferð á Þingvelli, Vigdísarvelli, Garðskaga enda eru oft margir frábærir staðir ókannaðir nálægt borginni. En svo er líka spennandi að fara út að Fonti á Langanesi... og ég hef aldrei komið í Loðmundarfjörð og þar um kring...
Heima er búið að vera verkefni síðustu margra daga að mála grindverkið umhverfis pallinn. Þetta var miklu meiri vinna en ég hélt upphaflega, en er sem betur fer afstaðið. Nú þurfum við að mála gluggana og bletta hér og hvar. Já já.
Krakkrnir: Ragnheiður er nú rúmlega 9 mánaða, komin með eina tönn í efri góm til viðbótar þeim tveimur er voru í þeim neðri. Hún er ákveðnari en andskotinn og efni í góðan grallara. Hún er nautsterk og er farin að ganga meðfram húsgögnum og sleppir sér stundum og dettur oft. Hún sefur vel í sínu eigin herbergi á nóttunni en er svo mikil félagsvera að ef hún heyrir píp þegar hún sefur á daginn þá vaknar hún.
Hrafnkell talar meira og meira og vill helst vera á týppinu og togar í það endrum og eins.
Þuríður Erna hjólar út um allt án hjálpardekkja á Schwinn hjólinu góða sem við fengum í góða hirðinum. Hún situr núna og horfir á sjónvarpið með P&P sólgleraugunum sem hún fékk á útsölu í fyrradag.
Jæja, hvað á maður að gera í dag? Ég nenni ekki að fara meira á útsölur, það er komin rigning.... kannski maður hamist bara meira í fjölskyldualbúmum
roger roger
-irod